Hvað gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja?
Þegar þú hættir að reykja finnur þú strax muninn. Auðvitað eru sumir hlutir erfiðir. Fráhvarfseinkennin, löngunin í reykingar, erfiðleikar við að einbeita sér, kvíði, þreyta, svefnvandamál – já, listinn yfir neikvæðar tilfinningar eftir að þú hefur hætt að reykja getur því miður verið langur.
En það getur verið kostur að finna líka fyrir öllu því jákvæða sem gerist í líkamanum þegar þú verður reyklaus. Því sá listi getur nefnilega líka orðið langur. Og ef þú berð saman hið jákvæða og hið neikvæða verður fljótt ljóst að kostirnir eru reyklausa lífinu í hag. ⚖
Hér færð þú nánari upplýsingar um það sem gerist í líkamanum þegar þú hættir. Ef þú ætlar að hætta skaltu geyma þessar upplýsingar og hafa þær innan handar. Þegar erfiðleikarnir hrannast upp getur verið gott að minna sig á allan þann ávinning sem fylgir því að hætta að reykja.
Allt um það sem gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja
Hvað gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja – klukkustund fyrir klukkustund
Breytingarnar eru hraðar og þú finnur mun á mjög stuttum tíma. Líkaminn er svo vanur því að fá jafnt og þétt skammta af nikótíni að hann bregst meira og minna beint við þegar þú hættir að láta hann fá það sem hann vill.
Þetta gerist fyrstu klukkustundirnar eftir að þú hefur hætt að reykja:
Eftir aðeins um 20 mínútur frá því að þú reyktir síðustu sígarettuna þína lækkar blóðþrýstingurinn. Það hægist einnig á hjartslættinum og hann stillir sig á eðlilegan og heilbrigðan hraða.
Þetta leiðir aftur til þess að hendur þínar ✋ og fætur 🦶 fá varma sinn til baka þegar blóðflæðið – sem var áður hindrað af reykingum – fær nýjan kraft og kemst núna út í fingur og tær á skilvirkari hátt.
Sama dag og þú hættir að reykja muntu finna fyrir mörgum jákvæðum áhrifum. Um það bil átta klukkustundum eftir að þú hættir getur þú til dæmis upplifað það að þú sért hressari en venjulega – það getur verið háð magni eiturefna, einkum magni kolsýrings, en magn hans hefur nú minnkað í líkamanum. Nikótínið í blóðinu hefur náð að minnka um allt að 90 prósent á sama tíma.
Um það bil 4 klukkustundum síðar – í heildina 12 tímum eftir að þú hættir – er súrefnisinnihald blóðsins aftur orðið eðlilegt, sem er mjög jákvætt!
24 klukkustundir. Nú hefur þú verið reyklaus í heilan sólarhring. Þetta getur orðið erfitt núna því þú gætir hafa náð toppnum í þeim kvíða sem nikótínfráhvarf hefur oft í för með sér. Reyndu að halda ró þinni og vera sterk/ur. Kvíðinn – sem flestir fyrri reykingamenn geta borið vitni um – er virkilega erfiður og óþægilegur en varir ekki lengi! Mundu að fyrir hvern dag sem líður og þú ert reyklaus minnkar þú hættuna á því að veikjast, t.d. af hjartaáfalli
Hvað gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja – einn dagur í einu
Bara það að geta rætt um tíma sinn sem reyklaus manneskja í dögum í staðinn fyrir í klukkustundum er gríðarlegur sigur sem þú getur verið mjög stolt/ur yfir. Þú hefur náð þetta langt – láttu það vera þér hvatningu til að fara alla leið!
Þetta gerist í líkamanum í fyrstu vikunni eftir að þú hættir:
Tveir dagar líða frá því að þú hefur hætt að reykja þar til sjálfbætandi ferli líkamans fara af stað. Taugaskaði sem reykingarnar hafa valdið byrjar að ganga tilbaka. Þú finnur mikinn mun þegar þú borðar því lyktar og bragðskyn fer nú að verða eðlilegt en það er mjög takmarkað hjá reykingafólki. Bragð og lykt verður nú greinilegri og sterkari – njóttu matarins! 🌮
Þrír sólarhringar – fleiri jákvæðir hlutir gerast! Ef þú þarft að láta taka blóðprufu þá mælist ekki lengur neitt nikótín í líkama þínum. Lungun sem hafa orðið fyrir miklu álagi vegna reyks byrja að hreinsa sig sjálf. Á sama tíma er þetta tímabil þar sem þú getur fundið fyrir mjög mikilli löngun í reykingar – þetta er að miklu leyti andlegt viðbragð. Ekki gefast upp – þú ert þegar búin/n að taka stór og mikilvæg skref á vegferð þinni!
Sjö sólarhringar – heil vika án sígarettna. Það er stórkostlegt! Þú mátt vera óskaplega stolt/ur yfir árangri þínum. Löngunin í reykingar getur verið til staðar – þú finnur fyrir henni við og við. Venjulega er farinn að líða langur tími á milli reykingalöngunar þegar hér er komið við sögu, sennilega finnur þú bara fyrir reykingalöngun þrisvar sinnum á dag. Og þessi löngun er ekki langvarandi. Hún varir að hámarki í tvær til þrjár mínútur.
Langur tími líður – þú tekur fleiri og stærri skref fram á við
Þetta verður auðveldara með tímanum. Ef þér tekst að komast í gegnum þetta þá sérðu fram á mikinn ávinning.
Þetta gerist í líkamanum á nokkrum mánuðum eftir að þú hættir:
Þrjár vikur búnar og þú ert nú komin/n yfir versta hjallann við að hætta að reykja. Fráhvarfseinkenni og neikvæðu tilfinningarnar sem fylgja þeim eru horfnar. Þér líður vel, þú ert glaður og orkumikill. Reiðin, depurðin og svefnerfiðleikarnir eru horfnir.
Tveir reyklausir mánuðir – betri öndunargeta lungna, meiri styrkur, minni hætta á beinþynningu. Þetta er rétti tíminn til að byrja að hreyfa sig og styrkja! 🏃♀️
Þrír reyklausir mánuðir – núna er blóðrásin mörgum ljósárum betri en þegar þú reyktir og þú hefur dregið verulega úr líkunum á hjartaáfalli. Húð þín er ekki lengur grá eins og hjá reykingafólki, þú lítur heilbrigðari út. Stinningarvandamál heyra sögunni til, löngun í kynlíf eykst og um leið aukast lífsgæði þín örugglega umtalsvert.
Hálft ár reyklaus – finnst þér ekki gott að draga andann? Ekki skrýtið! Bifhárin í lungunum þínum hafa eignast nýtt líf. Hóstinn sem hefur annars fylgt þér stöðugt er horfinn.
Hvað gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja – ár fyrir ár
Eitt reyklaust ár – hættan á heilablóðfalli hefur minnkað um 50 prósent. Ónæmiskerfið þitt hefur styrkst verulega. Þú hefur bætt dögum og árum við líf þitt.
Fimm reyklaus ár – þær frumur sem voru á forstigi krabbameins hafa allar læknast. Hætta þín á erfiðum sjúkdómum eins og heilablæðingu er orðin sú sama og hjá þeim sem ekki reykir.
10 ár – sígaretturnar eru minning ein. Og veistu að þú hefur minnkað líkur þínar á lungnakrabbameini um helming. Þú hefur aftur fengið lífið, heilsuna og frelsið til baka. Njóttu og vertu stoltur af árangri þínum – þú ert hetja! 🦸♂️