Hættu að reykja með nikótínplástrum
Getur lítill plástur á handleggnum í raun og veru hjálpað mér að hætta að reykja? Vísindasamfélagið og reynsla fólks segir já! Nikótínplástrar eru ein þekktasta aðferðin til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Þetta er viðurkennd og árangursrík aðferð sem hefur hjálpað mörgum.
Margt hefur gerst síðan nikótínplástrar komu fyrst fram á tíunda áratugnum. Bæði tæknin og varan hefur þróast og orðið árangursríkari og í dag er hægt að velja milli margra mismunandi tegunda af nikótínplástrum.
Ef þig dreymir um að losna við reykingar fyrir fullt og allt getur nikótínplástur orðið þér ómetanleg hjálp.
Allt um nikótínplástra
Hvað er nikótínplástur?
Nikótínplástrar eru ein algengasta varan til að venja sig af tóbaksnotkun. Nikótínplástrar hafa í um það bil 30 ár verið fáanlegir sem vel rannsakað og árangursríkt hjálpartæki fyrir þá sem vilja hætta að reykja. Margar klínískar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif og árangur nikótínplástra.
Notkun plástursins er einföld og góð. Plásturinn inniheldur einfaldlega nikótín sem frásogast gegnum húðina, berst inn í blóðrásina og dregur úr reykingalöngun og fráhvarfseinkennum.
Nikótínplástrar flokkast sem lyf og þá er hægt að kaupa í apótekum og í matvöruverslunum.
Hvernig virka nikótínplástrar?
Nikótínplástur er límdur á húðina eins og venjulegur plástur. Munurinn felst að sjálfsögðu í því að venjulegur plástur er settur á sár, á meðan nikótínplástrar eru notaðir til að venja fólk af því að reykja.
Plásturinn er settur á húðina og lítið magn nikótíns er frásogað í gegnum húðina. Með því að fá stýrt magn nikótíns sem er tekið upp af húðinni færð þú jafna, samfellda nikótínmeðferð yfir allan daginn.
Það eru til margar mismunandi tegundir nikótínplástra. Þú getur því fundið þá tegund sem hentar þér og þínum þörfum.
Mismunandi tegundir nikótínplástra eru til dæmis:
- Plástrar sem virka mismunandi lengi (t.d. 16 eða 24 klukkustundir)
- Plástur með mismunandi nikótíninnihald og styrk
- Mismunandi stærðir
- Mismunandi litir
Plásturinn berð þú á húðinni, yfirleitt á upphandlegg. En það virkar í raun að setja plásturinn hvar sem er á líkamann – kannski viltu hylja hann með klæðnaði eða kannski eru vissir hlutar húðarinnar viðkvæmari en aðrir.
Langar þig að prófa nikótínplástur? Prófaðu þig áfram. Finndu stað á húðinni sem hentar þér og fylgdu leiðbeiningum í fylgiseðli.
Hvaða kostir og ókostir eru við nikótínplástra?
Við erum öll einstök og höfum ólíkan smekk þegar nikótínlyf eru annars vegar. Það sem virkar fyrir einn getur getur alls ekki hentað næsta manni. Rétt eins og öll önnur lyf hafa nikótínplástrar kosti og ókosti.
Að hafa fullan skilning á því hvernig nikótínplástrar geta haft áhrif á þig auðveldar þér að finna vöru sem hentar þér og þínum þörfum.
Kostir:
- Með stöðugri losun nikótíns yfir daginn færðu jafnt magn af nikótíni í blóðið og ert því í minni hættu að fá skyndilega reykingalöngun
- Plásturinn dugar lengi, í heilan dag eða heilan sólarhring.
- Plástrarnir eru fyrirferðarlitlir og auðveldir í notkun
Ókostir:
- Stærsti ókosturinn er sá að nikótínplástrar virka hægt – ef þú færð skyndilega reykingalöngun getur tekið nokkra klukkutíma að finna áhrifin.
- Plástrarnir eru oft ansi dýrir
- Þú getur ekki stjórnað magni nikótíns sem þú færð í líkamann
- Geta ert húðina
- Örva ekki munninn, sem getur verið erfitt fyrir þá sem eru mjög vanir því að reykja.
Hvað innihalda nikótínplástrar?
Virka efni nikótínplástra er nikótín. Nikótínplástrar er til í mismunandi styrkleikum. Þannig getur þú fundið skammtastærð sem hentar þér og gefur þér nægan stuðning gegn fráhvarfseinkennum.
Algengustu styrkleikar nikótínplástra eru eftirfarandi:
- 7 mg
- 10 mg
- 14 mg
- 15 mg
- 21 mg
- 25 mg
Mismunandi magn nikótíns í ólíkum tegundum plástra gerir það að verkum að þú getur trappað magn nikótíns niður á meðferðartímabilinu.
Hafa nikótínplástrar einhverjar aukaverkanir?
Upptaka nikótíns í líkamanum hefur að sjálfsögðu í för með sér einhverja áhættu. Fyrir utan nikótín tengd áhrif getur notkun nikótínplástra einnig leitt til nokkurra húðvandamála.
Algengar aukaverkanir nikótínplástra eru:
- Húðvandamál
- Kláði
- Ógleði
- Svimi
- Kviðverkir
- Svefntruflanir
- Hjartsláttarónot
Þessar aukaverkanir eru venjulega tímabundnar og ganga yfirleitt yfir þegar þú hefur vanist meðferð með nikótínplástrinum.
Þú gætir líka fundið fyrir vandamálum sem tengjast fráhvarfseinkennum.
Hve marga nikótínplástra á ég að kaupa?
Það eru til sólarhringsplástrar (24 klukkustundir) og dagsplástrar (16 klukkustundir). Þeir eru einnig til í mismunandi styrkleika.
Ráðlagt að hefja meðferð með einum sólarhringsplástri á dag, plásturinn er þá settur á að morgni og látinn virka í 24 klukkustundir. Þá skiptir þú yfir í nýjan plástur. Sólarhringsplástur hentar þeim sem finna fyrir reykingalöngun þegar þeir vakna og vilja fá nikótín meðan þeir sofa.
Hjá mörgum er nóg að nota plástur sem verkar í 16 klukkustundir. Viðkomandi fær þá einungis nikótín meðan hann er vakandi og á fótum.
Ráðlagt er að byrja meðhöndlun með plástri sem er með aðeins of miklu nikótíni til að geta síðan minnkað skammtinn niður í plástur sem inniheldur minna magn á 1-2 mánuðum.
Hvað kosta nikótínplástrar?
Verð nikótínplástra fer eftir styrkleika, fjölda í pakkningu og framleiðanda. Allir þessir þættir hafa áhrif á verðið. Pakkningar með 7 plástrum kosta yfirleitt í kringum 4500 krónur.
Get ég notað nikótínplástra á meðgöngu?
Nei, þú ættir ekki að nota nikótín eða tóbak á meðgöngu. Það eru fullt af vísindarannsóknum sem sýna hversu skaðlegt nikótín er fyrir fóstrið. Nikótín í líkama móður gerir það að verkum að blóðflæði til fylgju og til legsins skerðist verulega. Þetta hefur aftur áhrif á þroska barnsins.
Brjóstagjöf og nikótín eiga heldur ekki vel saman. Nikótínið í blóði móður berst með brjóstamjólkinni yfir til barnsins og hefur heilsufarslega áhættu í för með sér.
Ef þú ert barnshafandi er öruggara að reyna að hætta að reykja án nikótínlyfja, einfaldlega til að lágmarka áhættuna fyrir barnið og þig sjálfa.
Leitaðu ráða hjá lækni eða ljósmóður ef þú þarft meiri stuðning, ráðgjöf eða hjálp vegna nikótínmeðferðar á meðgöngu og við brjóstagjöf.
Nikótínplástrar og börn
Nikótín er mjög sterkt eiturefni og það er sérstaklega hættulegt litlum börnum. Börn sem hafa fengið í sig nikótín geta fengið greinileg einkenni eins og til dæmis:
- Ógleði
- Uppköst
- Höfuðverk
- Svima
Losun nikótíns frá nikótínplástrum er að vísu langtímaferli, en er engu að síður mjög skaðlegt barninu. Alltaf skal geyma nikótínplástra þar sem börn hvorki ná til né sjá. Gættu þess einnig vandlega að notaðir plástrar lendi ekki einhversstaðar þar sem forvitin börn geta náð í þá. Gott ráð er að brjóta notaðan plásturinn saman með límið að innanverðu – það lágmarkar hættuna á því að plásturinn valdi barni skaða.
Ef barnið þitt gleypir nikótínplástur óvart skaltu strax hringja í eitrunarmiðstöð landspítalans og fylgja þeim leiðbeiningum sem þú færð.
Hvar kaupi ég nikótínplástra?
Nikótínplástrar fást án lyfseðils. Þú færð þá í apótekinu innan um önnur lyf og ráð gegn reykingum. Nikótínplástrar fást einnig í hefðbundnum matvöruverslunum. Þú getur meira að segja verslað þér nikótínplástur í vefverslunum.
Þú verður að vera 18 ára til þess að geta keypt nikótínplástra.
Gættu þess að lesa alltaf fylgiseðilinn áður en þú setur á þig nikótínplástur. Til að fá fram bestu áhrifin og til þess að þér líði sem best á meðan á meðferð stendur er mikilvægt að þú fylgir ráðlögðum skammtastærðum og takir ekki of stóra eða litla skammta.
Hvert á líkamann á maður að setja nikótínplástur?
Almennt séð virka plástrarnir á flestum húðsvæðum. Bestu áhrifin nást þó fram ef þú setur plásturinn á svæði húðarinnar þar sem ekki er sár, þar sem húðin er þurr og hrein og engin hár eru til staðar.
Algengustu og mest prófuðu svæðin til að setja nikótínplástur á eru:
- Bak
- Upphandleggur
- Mjöðm
- Brjóstkassi
Til þess að plásturinn sitji fastur á húðinni skaltu ýta fast á hann með lófanum þannig að hann festist almennilega.
Nikótínplástrar geta í vissum tilvikum ert húðina og þess vegna er best að þú skiptir um staðsetningu plástursins í hvert skipti – láttu líða viku á milli þess sem þú notar sama húðsvæði til að forðast ertingu í húð eða kláða.
Til að byrja með getur þér fundist skrýtið að hafa eitthvað fast við húðina en flestir venjast því smám saman. Hjá flestum verður það rútína að setja á sig og taka af nikótínplástra. Það verður bara eðlilegur hluti af tilverunni.
Ef þér finnst óþægilegt eða vandræðalegt að bera nikótínplástra getur þú einfaldlega falið plásturinn undir fötunum. Veldu staðsetningu þar sem plásturinn sést ekki. Að reyna að hætta að reykja og standast fráhvarfseinkenni er ekki auðvelt – þú átt ekki að þurfa að skammast þín eða finna fyrir óþægindum af því að þú notar nikótínplástra eða önnur hjálpartæki/lyf.
Af hverju ætti ég að velja nikótínplástra?
Ert þú að íhuga að nota nikótínplástra? Til hamingju! Það þýðir að þú vilt hætta að reykja. Erfið en frábær ákvörðun.
En eru nikótínplástrar góður kostur fyrir þig? Það fer eftir því hvað þér finnst þægilegast. Fyrir suma fela plástrarnir í sér góðan stuðning – þú setur plásturinn einfaldlega á þig og þarft ekki að hafa áhyggjur af fráhvarfseinkennum þann daginn. Plásturinn er bara fastur við húðina og gefur frá sér jafnan og öruggan skammt af nikótín á nokkrum klukkustundum.
Hjá öðrum sem eru vanir því að vera sífellt með eitthvað í höndunum getur verið erfiðara að nota nikótínplástra.
Best er að prófa sig áfram. Svo lengi sem plásturinn fær þig til að sleppa svo ekki sé nema einni sígarettu er það strax ávinningur.
Nikótínplástrar og reykingar?
Löngun í reykingar er sterk og jafnvel þeir sem nota nikótínplástra geta fundið fyrir löngun í sígarettur. En hvað gerist ef þú reykir á sama tíma og þú notar nikótínplástur?
Áhrifin eru háð næmi einstaklingsins fyrir miklu magni nikótíns en það er ekki ráðlagt að nota nikótínplástra og halda síðan áfram að reykja eins og ekkert sé. Jafnvel sá sem er vanur nikótíni og hefur notað tóbak í mörg ár getur fengið nikótíneitrun og farið að líða mjög illa.
Hvað gerist ef ég innbyrði of mikið magn nikótíns?
Þú getur m.a. fundið fyrir:
- Hröðum hjartslætti
- Ógleði
- Uppköstum
Ef þú þjáist nú þegar af hjarta- og æðasjúkdómum getur nikótíneitrun verið sérstaklega skaðleg. Tilgangurinn með nikótínplástrunum er augljóslega að verða algerlega laus við fíknina – ekki aðeins að skipta út einum nikótíngjafa fyrir annan. Ef þú nú notar plástrana samkvæmt ráðleggingum, þá áttu meiri möguleika á að ná takmarki þínu og hefja reyklaust og nikótínfrítt líf.