Nikótíntyggigúmmí – að hætta að reykja með nikótíntyggigúmmíi

Þú vilt hætta að reykja en veist ekki hvernig þú átt að fara að. Kannast þú við þessa lýsingu? Þá ert þú ekki ein/n! Það eru margar ástæður fyrir því að hætta að reykja og margir eru í sömu stöðu og þú – þeir sjá og gera sér grein fyrir því hversu hættulegt og dýrt er að reykja.

En það getur verið erfitt að hætta. Til þess að þetta takist þarf hvatningu, þol og lyf sem geta hjálpað. Með góðum nikótínlyfjum eykur þú líkurnar á því að þú ljúkir ferlinu og að þér takist þetta. Það er vel mögulegt – heimurinn er fullur af fólki sem reykti einu sinni.

Með góðum ásetningi og stuðningi getur þú orðið ein/n af þeim. 💪


 

Allt um nikótíntyggigúmmí


Hvað er nikótíntyggigúmmí

Nikótíntyggigúmmí er tyggigúmmí sem inniheldur nikótín. Þú notar tyggigúmmíið til að draga úr reykingalöngun og vinna gegn fráhvarfseinkennum. Nikótíntyggigúmmí er til í tveimur ólíkum styrkleikum og með mismunandi bragði. Þannig er auðvelt fyrir þig að finna nikótíntyggigúmmí sem passar þér.

Mörgum finnst nikótíntyggjó vera nauðsynlegur stuðningur í baráttu sinni fyrir því að verða tóbakslaus.

Með nikótíntyggigúmmíi og með öðrum nikótínvörum færð þú hjálp við að draga úr löngun í reykingar án allra þeirra skaðlegu áhrifa sem tóbak hefur í för með sér.

Hvernig virkar nikótíntyggigúmmí?

Þegar þú tyggir nikótíntyggigúmmí losnar nikótín. Nikótínið er tekið upp af slímhúðinni í munninum, fer inn í blóðrásina og gerir það að verkum að fráhvarfseinkenni hverfa og löngunin í reyk minnkar.

Þú gerir eftirfarandi:

 • Byrjar að tyggja – brátt finnur þú vel fyrir bragðinu.
 • Hættir að tyggja í smá stund og geymir tyggigúmmíið til hliðar í munninum. Bragðið dofnar og nikótínið sogast upp gegnum slímhúðina í munninum.
 • Byrjaðu aftur að tyggja og endurtaktu ferlið í u.þ.b. 30 mínútur.

Þú stjórnar upptöku nikótíns með því hvernig þú tyggur. Ef þú tyggur mikið þá losnar meira nikótín úr tyggjóinu. Þá átt þú á hættu að gleypa nikótínið í staðinn fyrir að láta líkamann taka efnið upp í gegnum slímhúðina í munninum. Það er svosem ekki hættulegt, en þú getur fundið fyrir nikótíninu sterklega þegar þú kyngir því og þú færð ekki þau áhrif sem þú þarft til að losna við reykingalöngunina.

Þú skalt því alltaf nota tyggigúmmíið samkvæmt skrefunum hér að ofan – ef tyggjóið er notað á réttan hátt er það öflugt vopn gegn nikótínfráhvarfi.

Hvar get ég keypt nikótíntyggigúmmí?

Nikótíntyggigúmmí fæst án lyfseðils í apótekum eða í matvöruverslunum – en þú verður að vera orðin/n 18 ára til að mega kaupa það.

Einnig er hægt að kaupa nikótíntyggigúmmí á netinu.

Hvaða kostir og gallar eru við nikótíntyggigúmmí?

Fyrir suma getur nikótíntyggigúmmí verið fullkomin leið til að halda reykingalöngun í skefjum. En hjá öðrum eru það aðrar tegundir nikótínlyfja sem virka best. Við erum öll ólík og öll nikótínlyf hafa kosti og ókosti í för með sér.

Kostir nikótíntyggigúmmís geta verið:

 • Gott og ferskt bragð í mörgum mismunandi útgáfum
 • Einfalt í notkun
 • Hefur hröð áhrif á reykingalöngun
 • Hægt að stjórna losun nikótíns með því að tyggja mismunandi mikið
 • Örvar munninn, sem getur verið gott fyrir þá sem eru að hætta að reykja.

 

Ókostir nikótíntyggigúmmís geta verið:

 • Óþægilegur kostur ef þú ert með tannvandamál
 • Vissar aukaverkanir, eins og t.d. erting í hálsi og hálsbruni
 • Einnota vara sem þú þarft að fleygja
 • Getur valdið niðurgangi

 

Ertu ekki viss um að nikótíntyggigúmmí henti þér? Keyptu minnstu pakkninguna og prófaðu. Ef þér finnst tyggjóið óþægilegt eða ef það skilar ekki þeim árangri sem þú vilt skaltu muna að það eru til margar aðrar tegundir nikótínlyfja. Það eru miklar líkur á því að þú finnir einhverja lausn sem hentar einmitt þér.

Hvað inniheldur nikótíntyggigúmmí?

Virka efnið í nikótíntyggigúmmíi er auðvitað nikótín. Nikótínið losnar þegar þú tyggur og það er tekið upp af slímhimnunni í munninum. Nikótíntyggigúmmí getur einnig innihaldið sorbítól. Það er sykurtegund sem er til í náttúrunni, til dæmis í eplum og öðrum ávöxtum og berjum. Sorbítól er notað sem sætuefni og gefur tyggigúmmíinu gott bragð – það getur verið hægðalosandi ef þú færð of mikið af því.

Hefur nikótíntyggigúmmí einhverjar aukaverkanir?

Sumir eru næmari en aðrir og mismunandi fólk getur brugðist við á mismunandi hátt við ákveðnum hlutum. Nikótíntyggigúmmí fylgja nokkrar þekktar aukaverkanir sem geta komið fram. Ef þér finnst erfitt að nota tyggigúmmí getur þú prófað aðrar tegundir nikótínlyfja.

Dæmi um aukaverkanir nikótíntyggigúmmís:

 • Ógleði
 • Eymsli í hálsi
 • Niðurgangur
 • Hósti
 • Hiksti
 • Munnangur
 • Ropi
 • Þreyta
 • Höfuðverkur

Er nikótíntyggigúmmí slæmt fyrir tennurnar?

Tygging á nikótíntyggigúmmíi getur ert tennur og tannhold. En samanborið við áhrif sígarettna á tennurnar, með mislitun og losnun tanna úr tannholdi, er tyggigúmmí mun betri valkostur.

Hve mikið nikótín inniheldur nikótíntyggigúmmí?

Nikótíntyggigúmmí er til í mismunandi styrkleikum sem gerir það að verkum að þú getur fundið skammtastærð sem hentar þér.

 Algengur styrkleiki er:

 • 2 mg
 • 4 mg

Þar sem bæði er til sterkt og veikt nikótíntyggigúmmí áttu möguleika á því að taka nægt magn til að ráða við þín fráhvarfseinkenni. Því meiri sem dagleg neysla þín á tóbaki er, því sterkara tyggigúmmí þarft þú að hafa í upphafi.

Ef þú reykir minna en 20 sígarettur á dag, getur 2 mg tyggigúmmí verið nóg til að halda lönguninni í reykingar í skefjum. Ef þú ert stórreykingamanneskja verður þú að nota sterkara tyggigúmmí.

Hve lengi á ég að nota nikótíntyggigúmmí?

Lengd meðferðar er mismunandi milli einstaklinga, á sama hátt og tóbaksfíkn er mismunandi milli einstaklinga. Sumir losna tiltölulega auðveldlega við nikótínið en aðrir þurfa að glíma við þennan vanda mun lengur.

Ráðlögð meðferðarlengd er um það bil 3 mánuðir með nikótíntyggigúmmíi. Eftir það er mælt með að reyna að draga úr fjölda skammta á dag til að geta loksins lifað alveg án nikótíntyggigúmmís.

Þegar þú hefur komið reglu á notkun tyggigúmmís og þegar þér finnst þú geta höndlað löngunina í reykingar getur þú byrjað að minnka skammtastærðir. Flestir geta ráðið við 8 til 12 stykki af nikótíntyggjói á dag, óháð nikótínstyrk í tyggjóinu.

Hjá venjulegu fólki eru 8 til 12 tyggigúmmí á dag góður skammtur – án tillits til þess hversu mikið nikótín er í tyggigúmmíinu.

Notaðu aldrei meira en 24 nikótíntyggigúmmí á dag. Þegar þú skerð niður skammtinn getur þú til dæmis skipt yfir í veikara tyggigúmmí til þess að geta smám saman vanið þig alveg af því.

Reyndu að draga hægt og bítandi úr notkun tyggigúmmís. Langvarandi notkun nikótíntyggigúmmís í meira en eitt ár er ekki ráðlögð.

Ráð 1. Það er mikilvægt að upphafsskammturinn sé ekki of lágur. Undirskömmtun dregur úr líkum á að verða tóbakslaus.

 

Ráð 2. Finnst þér þú vera tilbúinn að hætta notkun nikótíntyggigúmmís? Finnst þér þú vera laus við fráhvarfseinkennin. Gott! Ef þú átt nokkur tyggigúmmí eftir í pakkningunni skaltu geyma þau. Jafnvel þótt þú sért reyklaus og hafir vanið þig alveg af notkun tóbaks getur verið góð hugmynd að vera með tyggigúmmí aðgengilegt – löngunin getur komið fram við ólíklegustu aðstæður og getur jafnvel komið fram þegar þú átt síst von á því. Að geta þá fljótt unnið gegn lönguninni í reykingar dregur úr líkunum á því að þú kveikir í sígarettu!

Hvernig veit ég hvort nikótíntyggigúmmí hentar mér?

Ef þú notar tyggigúmmí gæti verið einfalt fyrir þig að venjast nikótíntyggigúmmíi. Þá er það ekki framandi eða skrýtið að tyggja tyggigúmmí. Það getur einnig hentað þeim sem finnst erfitt að losna við vanann af því að vera með eitthvað í munninum – mörgu reykingafólki finnst nefnilega andlegi þátturinn og vaninn jafn erfiður viðfangs og líkamlega löngunin í nikótín.

Notkun nikótíntyggjógúmmís gerir manni kleift að stjórna því magni nikótíns sem losnar– það er til dæmis ekki mögulegt með nikótínplástri.

Nikótíntyggjó er auðvelt í notkun og handhægt að geyma í handtöskunni eða vasanum. Það er gott fyrir þig að vita að þú ert með tyggigúmmí við höndina þegar reykingalöngunin gerir vart við sig.

Eina leiðin til að vita hvort nikótíntyggigúmmí hentar þér er að prófa það.

 • Færðu ekki þau áhrif sem þú vilt?
 • Finnst þér tyggjóið bragðvont?
 • Er erfitt að tyggja?

Þá eru til margar aðrar tegundir nikótínlyfja. Leitaðu ráða hjá lækni eða lyfjafræðingi. Að verða tóbakslaus ætti ekki að vera erfiðara en það nú þegar er.

Ó nei, ég gleypti nikótíntyggigúmmíið mitt! Er það hættulegt?

Nei – að kyngja nikótíntyggigúmmíi hefur enga sérstaka hættu í för með sér fyrir heilsuna. 😊 Tyggigúmmíið er hannað til að nota í munni og er aðlagað að slímhimnum munnholsins sem eiga að taka upp nikótínið. Ef þú gleypir óvart tyggigúmmíið helst nikótínið einfaldlega kyrrt í tyggigúmmíinu – líkaminn tekur ekki upp nikótínið í maganum og þú færð því ekki nægilega hjálp gegn fráhvarfseinkennum.

Get ég notað nikótíntyggigúmmí á meðgöngu?

Nikótín er skaðlegt fyrir fóstrið. Á meðgöngu ættir þú ekki að nota nikótínvörur til að hætta að reykja heldur beita öðrum aðferðum. Nikótínið í blóði móðurinnar berst nefnilega yfir til fóstursins og getur skert blóðflæðið til fylgju, legköku og legs – sem getur haft mjög neikvæð áhrif á þroska fóstursins eða orðið til þess að barnið fæðist fyrir tímann.

Nikótín berst einnig út í brjóstamjólk – þú átt því að forðast nikótíntyggigúmmí, nikótín og tóbak algjörlega á meðan þú ert með barn á brjósti.

Nikótíntyggigúmmí og börn

Börn eiga ekki að fá í sig nikótín – það er eiturefni og börn eru einkar viðkvæm fyrir því. Nikótíntyggigúmmí skal því að sjálfsögðu geyma þar sem börn hvorki ná til né sjá – sérstaklega vegna þess að það er svo gott á bragðið. Kannski hafa börnin vanist venjulegu tyggigúmmí og finnst það mjög gott? Þá getur nikótíntyggigúmmí verið lúmskt, þar sem það líkist hefðbundnu tyggjói.