Hvaða aukaverkanir fylgja því að hætta að nota munntóbak?

Að hætta að nota munntóbak og verða tóbakslaus felur augljóslega í sér mikinn ávinning fyrir heilsuna en ferlið við að losna við löngunina getur verið erfitt. Fráhvarfseinkenni koma fram stuttu eftir síðasta munntóbaks skammtinn og geta valdið þér talsverðum óþægindum. Hvað gerist í líkamanum þegar hætt er að nota munntóbak? Líkaminn byrjar að aðlagast tóbakslausu lífi og það getur verið ögrandi ferli, einkum fyrir þá sem hafa notað mikið munntóbak lengi.


 

Algengar aukaverkanir sem fylgja því að hætta að nota munntóbak


Þreyta og svefnvandamál

Margir sem hætta að nota munntóbak finna fyrir erfiðleikum með svefn. Þetta getur orsakast af nikótínlöngun sem truflar svefn eða veldur því að líkaminn fer í gegnum eins konar krísu þegar hann fær ekki lengur nikótín. Lélegur svefn leiðir auðvitað til mikillar þreytu. Að hætta að nota munntóbak er krefjandi og sumir geta fundið fyrir mikilli þreytu.

Góður svefn er mjög mikilvægur til þess að þér líði vel. Hlutir sem geta auðveldað svefn eru:

  • Líkamsrækt
  • Slökunaræfingar
  • Rétt hitastig í svefnherberginu
  • Rúm sem hentar þínum líkama
  • Gott vökvajafnvægi í líkamanum

Þreyta og svefntruflanir sem þú finnur fyrir í tengslum við að hætta að nota munntóbak eru í flestum tilfellum tímabundin og þegar líkaminn hefur vanist því að vera án nikótíns er líklegt að svefnmynstrið verði reglulegt á ný.

Kvíði þegar notkun munntóbaks er hætt

Nikótínið í munntóbakinu örvar heilann og losar ánægju hormón (t.d. dópamín). Þegar þú finnur ekki lengur fyrir örvun getur depurð komið fram og í vissum tilvikum getur þú jafnvel fundið fyrir kvíða. Fyrir suma getur það einnig verið dálítið tilfinningamál að láta af fíkn sinni. Munntóbakið hefur gefið manni öryggistilfinningu í langan tíma og að hætta þýðir að heilu tímabili í lífi manns er einfaldlega lokið.

Sem betur fer er fullt af hlutum sem hægt er að gera til að bæta skapið, til dæmis:

  • Hreyfing – líkamsrækt er vel þekkt aðferð til að auka vellíðan.
  • Hollt mataræði með mikið af feitum fisk, grænmeti og belgjurtum. Hollur matur stuðlar bæði að líkamlegri og andlegri heilsu.
  • Þú skalt umgangast vini og ættingja. Það að umgangast aðra og eiga stund með öðrum sem manni þykir vænt um skapar vellíðan.

Jafnvel þótt það sé sjaldgæft getur fólk orðið þunglynt af því að hætta að nota munntóbak. Yfirleitt er það aðeins ástand sem líður hjá. Ef þunglyndið verður langvarandi og mikið skaltu leita þér hjálpar. Þunglyndi getur verið alvarlegt og því er mikilvægt að fá meðferð við því sem allra fyrst.

Svimi

Þú finnur fyrir sundli og svima. Kannski missir þú fótfestuna. Svimi er algeng aukaverkun þegar notkun munntóbaks er hætt þar sem blóðflæðið í æðunum eykst þegar blóðið þarf ekki lengur að flytja nikótín um líkamann. Á sama tíma lækkar blóðþrýstingurinn og hjartslátturinn hægist. Að finna fyrir svima getur verið virkilega óþægilegt en það er viðráðanlegt.

  • Andaðu djúpt og sestu á stól þangað til sviminn hverfur.
  • Drekktu vatn
  • Það hjálpar einnig að hreyfa sig stöðugt til að vinna gegn svimatilfinningu.

Þyngist ég þegar ég hætti að nota munntóbak?

Það að hætta að nota munntóbak felur í sér mjög jákvæðan ávinning fyrir heilsu þína en það er því miður neikvætt að bæta á sig aukakílóum. Ef þú tekur eftir því að mittið hefur blásið út, þá ert þú ekki ein/n um það – mjög margir sem hætta að nota munntóbak og hætta að reykja þyngjast. Það eru nokkrar ástæður fyrir þessu:

  • Þegar þú hættir notkun nikótíns geta efnaskipti líkamans hægt á sér. Það þýðir að hitaeiningarnar brenna ekki jafn hratt og áður og þú þyngist.
  • Venjan að vera með eitthvað í munninum er sterk fyrir þann sem notar munntóbak. Margir skipta tóbakinu út fyrir mat eða nammi til að draga úr lönguninni.
  • Í mörgum tilfellum eykst matarlystin þegar hætt er að nota munntóbak – þú borðar einfaldlega meira en venjulega.

Er hægt að hætta að nota munntóbak án þess að þyngjast? Já, gættu þess til dæmis að stunda líkamsrækt – einföld hversdagsleg hreyfing eins og gönguferðir og hjólatúrar teljast með. Reyndu einnig að gæta að því hvað þú borðar. Ávextir geta stöðvað löngun í sætindi alveg á sama hátt og kökur!

Hafðu í huga að það að þyngjast smávægilega er ekki heimsendir. Það er lítil fórn að færa fyrir að verða laus við munntóbakið. Ekki vera of harður við sjálfan þig meðan þú hættir að nota munntóbak – þú ert að standa þig rosalega vel!

Gott ráð! Það er margt sem hægt er að setja í munninn til að líkja eftir tóbakstilfinningunni. Prófaðu sykurlaust tyggigúmmí eða hálstöflu undir vörina! Tóbak og nikótínlaust „munntóbak“ getur einnig komið í staðinn.

 

Meltingarvandamál – algeng þegar hætt er að nota munntóbak

Þaninn kviður, hægðatregða, þung eða erfið tilfinning í maga og ógleði. Þetta getur verið erfitt þegar þú reynir að hætta að nota munntóbak. Kannski hefur munntóbakið verið hluti af venju þinni til að fá kerfið af stað, og án þess getur maginn orðið tregur. Hægðatregða getur orðið til þess að maður finni fyrir ógleði.

Það eru mörg góð ráð til að fá meltingarfærin til að starfa eðlilega aftur. Sveskjur eru klassískar ásamt trefjaríkum mat. Mundu að drekka nóg af vatni og hreyfðu þig – það kemur þörmunum á hreyfingu.

Meltingarvandamál sem koma fram eftir að notkun munntóbaks er hætt líður oftast hjá – þegar líkami þinn hefur vanist nýju ástandi finnur maginn aftur sinn hefðbundna takt.

Höfuðverkur

Eitt allra algengasta fráhvarfseinkennið er slæmur höfuðverkur. Hann getur verið mjög erfiður og virkilega gert þér erfitt fyrir við að starfa og einbeita þér. Sem betur fer er hægt að vinna gegn höfuðverk á marga mismunandi vegu:

  • Vökvi! Drekktu mikið vatn!
  • Nudd – afslappaðir vöðvar í öxlum og hnakka geta dregið úr höfuðverk.
  • Svefn – vel úthvíldur líkami þjáist ekki eins mikið af höfuðverk.

Í flestum tilvikum er höfuðverkurinn sem tengist því að hætta notkun munntóbaks tímabundinn og hverfur yfirleitt af sjálfu sér eftir skamman tíma.