Uppdaterad: ágúst 20, 2024

Hvað gerist í líkamanum þegar ég hætti að nota munntóbak?

Skapsveiflur, svimi, ógleði. Já, að hætta að nota munntóbak felur í sér fjölda mismunandi áskorana og þú munt taka eftir því að það gerist mikið í líkamanum þegar hann fær ekki lengur sinn daglega nikótínskammt. Það sem verður augljósast eru hin erfiðu fráhvarfseinkenni sem geta valdið því að þér líði verulega illa. En vertu róleg/ur – það eru mörg góð ráð um hvernig er best að meðhöndla fráhvarfið og hvernig þú getur aukið möguleika þína á að losna alveg við munntóbak.

Mundu einnig að þessar erfiðu tilfinningar eru tímabundnar. Brátt hverfa fráhvarfseinkennin og þér mun líða vel á ný.


 

Þetta gerist í líkamanum þegar þú hættir að nota munntóbak – dag fyrir dag.


Fráhvarfseinkennin birtast bæði á líkamlegan og andlegan hátt

  • Ógleði. Líkaminn bregst við á mismunandi hátt þegar nikótínið hverfur úr líkamanum og löngunin tekur við. Margir finna fyrir verulegri ógleði.
  • Svimi. Nikótín hækkar blóðþrýsting. Þegar þú hættir að gefa líkamanum nikótín getur blóðþrýstingurinn lækkað – og það getur orsakað það að þú upplifir svima.
  • Svefnerfiðleikar. Þegar líkaminn stillir sig inn á það að lifa án nikótíns getur það truflað svefnvenjur þínar. Reyndu að finna leið til að slaka á – góður svefn er mikilvægur þáttur í betri heilsu.
  • Magavandamál og hægðatregða. Það er alls ekki óvenjulegt að finna fyrir vandamálum í þörmum og maga þegar hætt er að nota munntóbak. Hægðatregða er algengt vandamál. Það getur verið gott að drekka mikið af vatni á þessu tímabili – það hjálpar þörmunum og gerir það að verkum að maginn verður virkari.
  • Höfuðverkur. Hjá sumum getur nikótínlöngunin komið fram sem mikill höfuðverkur. Þetta er erfitt og pirrandi en hjá flestum er um tímabundinn vanda að ræða.
  • Skapsveiflur. Fráhvarfseinkennin sem þú finnur fyrir þegar þú hættir að nota munntóbak hafa áhrif á skapið. Þú pirrast og reiðist auðveldlega og getur líka fundið fyrir depurð. Sumir finna líka fyrir vægu þunglyndi. Að stunda líkamsrækt getur verið góð leið til að halda neikvæðum tilfinningum í skefjum.

Einum til þremur dögum eftir síðasta skammt

Fyrstu dagarnir eru sannarlega verstir í nikótínfráhvarfinu. Það er einmitt þá sem þú finnur fyrir fráhvarfseinkennunum af fullum krafti. Ógleði, höfuðverkur, skapsveiflur – allt eru þetta merki um að líkami þinn sé í uppreisn og fíkinn í nikótín.

Það er ekki óalgengt að fá bakslag snemma á þessu tímabili, einmitt vegna þess að nikótínlöngunin og fráhvarfseinkennin eru svo sterk. En ef þér tekst að þola þessa hálfu viku, þá tekurðu eftir því að erfiðu tilfinningarnar dofna smám saman og verða mikið viðráðanlegri á tiltölulega stuttum tíma.

Svimi getur komið fram sem aukaverkun fyrstu dagana, sem er afleiðing af því að blóðþrýstingurinn lækkar. Mundu að drekka mikið vatn og borða vel.

Fjórum til sjö dögum eftir síðasta munntóbaks skammtinn

Því lengri tími sem líður, því minna ber á líkamlegri löngun í nikótín. Þetta getur þó enn verið íþyngjandi og erfitt í vissum aðstæðum. Hjá sumum getur þetta tímabil einkennst af sífelldum höfuðverkjum – það er erfitt, en höfuðverkurinn verður smám saman sjaldgæfari og eftir smá tíma hverfur hann alveg.

Ráð! Stór hluti fráhvarfsins er að maður saknar þeirrar tilfinningar að vera með eitthvað undir vörinni. Manni finnst einfaldlega skrýtið að vera ekki með tóbak í munninum. Prófaðu að hafa eitthvað annað í munninum, til dæmis sykurlaust tyggigúmmí. Þannig getur þú líkt eftir tilfinningunni að nota munntóbak án þess að fá í þig nikótín eða önnur skaðleg efni. Í dag er einnig til tóbaksfrítt og nikótínfrítt munntóbak sem getur virkað vel.

Fyrstu vikuna án munntóbaks er einnig algengt að finna fyrir mikilli löngun í sætindi. Til að forðast erfiðar sveiflur á blóðsykri er gott að halda jöfnu og góðu mataræði. Gættu þess að hafa aðgang að góðum, næringarríkum bitum, eins og til dæmis ávöxtum í staðinn fyrir nammi og kökur.

Þegar þér hefur tekist að vera heila viku án munntóbaks er líkaminn laus við nikótín. Þú hefur nú tekið stórt skref í átt að tóbakslausu lífi!

Tveimur vikum eftir síðasta munntóbaks skammtinn

Tóbakslaust lífið virðist einfaldara, en það er ennþá nýtt fyrir þér og það er ekki óalgengt að fráhvarfseinkenni komi fram jafnvel þegar hér er komið við sögu. Sætindalöngun og skapsveiflur koma fram. Reyndu að einbeita þér að ásetningnum þínum – hver klukkustund sem þú þolir án munntóbaks er raunverulegur sigur!

Mánuði eftir síðasta munntóbaks skammtinn

Það getur verið gott fyrir ásetninginn að einbeita sér að hlutum sem greinlega verða miklu betri einum mánuði eftir að hætt hefur verið að nota munntóbak. Þú finnur sennilega mesta breytingu í munninum – tannholdið og tennurnar sem hafa orðið fyrir álagi vegna tóbaksins eru í miklu betra standi núna.

Til að halda viljastyrk og ásetningi er gott að forðast það sem fær þig til að efast um getu þína – hættu að fá þér bjór eftir vinnu, kaffi á morgnana eða annað sem þú tengir við munntóbakið – láttu það vera í smá tíma.

 

Ráð! Undirbúðu þig undir erfið tímabil. Það er auðvelt að halda að maður sé kominn yfir fráhvarfið þegar nokkrir mánuðir eru liðnir, en eftir um 40 daga frá síðustu tóbaks notkun getur þú fundið fyrir erfiðum tilfinningum. Ef þú ert undirbúin/n undir þetta tímabil andlega ræður þú betur við það.

90 dögum eftir síðasta munntóbaks skammtinn

Fyrir flesta er lífið orðið eðlilegt og þægilegt núna. Þú hefur vanist munntóbakslausu lífi og löngunin í munntóbak er ekki jafn mikil og áður – tóbakslöngun getur þó blossað upp við og við. Reyndu að standa á móti og hugsaðu um alla þína sigra! Þú getur þetta!

1 ári eftir síðasta munntóbaks skammtinn

Þú hefur staðið þig frábærlega vel og getur núna sagt með stolti að þú notir ekki tóbak. Og veistu – áhættan á fjölmörgum sjúkdómum hefur núna minnkað, meðal annars hættan á sykursýki 2.